Innlent

Biskup hafi vald til að flytja séra Gunnar

Biskup Íslands telur að séra Gunnari Björnssyni beri að víkja frá Selfossi, með vísan í lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Gunnar ætlar sér hvergi og hefur boðað til fundar með stuðningsmönnum á Selfossi í kvöld.

Biskup Íslands skrifaði séra Gunnari Björnssyni og bauð honum að taka að sér embætti sérþjónustuprests við Biskupsstofu í Reykjavík. Þetta kom til í kjölfar kynferðisbrotamáls, sem kom upp fyrir um tveimur árum. Hann var sýknaður í Hæstarétti af ákæru um kynferðislegt áreiti við unglingsstúlkur í söfnuði hans á Selfossi.

Séra Gunnar viðurkenndi hins vegar tiltekna háttsemi fyrir dómi, þótt ekki væri hann sakfelldur. Sérstök úrskurðarnefnd Þjóðkirkjunnar úrskurðaði svo að hann hefði sýnt af sér háttsemi sem prestur hvorki á né má sýna sóknarbörnum. Þetta átti meðal annars við um kossa og snertingu, og ekki síst að hann hafi leitað sér huggunar hjá barnungum stúlkum. Þetta sé ekki í samræmi við siðareglur presta; semsagt siðferðisbrot.

Haft var eftir Séra Gunnari í gær, að hér skipti dómur Hæstaréttar mestu máli og hann hygðist hvergi fara.

Samkvæmt upplýsingum frá Biskupsstofu, telja menn að Gunnar eigi ekkert val. Honum beri að koma til Reykjavíkur að boði Biskups. Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, getur stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, flutt hann úr einu embætti í annað, enda heyri bæði embættin undir stjórnvaldið. Þetta stjórnvald er biskup.

Eysteinn Ó. Jónasson, formaður Sóknarnefndar, segir að nefndin sé einhuga í þeirri afstöðu sinni að Gunnar komi ekki aftur til starfa á Selfossi. Söfnuðurinn sé klofinn vegna séra Gunnars og farsælast yrði að hann viki.

Séra Gunnar auglýsir í Dagskránni, fréttablaði fyrir austan fjall, að hann boði til fundar í kvöld á Hótel Selfossi. Allir séu hjartanlega velkomnir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×