Innlent

Kalla eftir efndum á stöðugleikasáttmála

Stöðugleikasáttmálinn er í uppnámi vegna vanefnda stjórnvalda, að mati forystumanna Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands, sem funduðu um málið í dag. Þeir segja hugmyndir um vaxtahækkun ögrun og segja pólitískar æfingar koma í veg fyrir að virkjanaframkvæmdir komist í gang.

Þolinmæðin er á þrotum og þeir vilja fá fund með ríkisstjórninni á næstu dögum um að stjórnvöld efni sinn hluta stöðugleikasáttmálans. Vilmundur Jósefsson, starfandi formaður SA, segir að sáttmálinn sé orðinn tæpur á tíma og lítið hafi gerst. Þeir telji því miður að Alþingi og ríkisstjórn hafi verið að draga lappirnar.

Þeir minna á að launalið kjarasamninga var frestað fram í október meðal annars til að gefa Seðlabankanum tíma til að lækka vexti niður fyrir tíu prósent. Vilmundur segir ekkert hafa gerst í vaxtamálum. Nýskipaður seðlabankastjóri hafi þvert á móti áréttað að það myndi alveg eins koma til vaxtahækkana. Það setji að mönnum hroll. Það sé tvímælalaust ögrun gagnvart stöðugleikasáttmálanum.

Þeir þrýsta líka á að fyrirheit um framkvæmdir verði efnd og nefnir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, bæði framkvæmdir á vegum hins opinbera, sem lífeyrisjóðir hafi verið tilbúnir að fjármagna, og stórframkvæmdir í stóriðju. Vilmundur segir ekkert hafa gerst í orkuframkvæmdum og svo virðist sem pólitískar æfingar komi í veg fyrir að byrjað sé á virkjunum. Gylfi segir að við blasi einhver hringlandaháttur í því hvaða virkjanakostir séu í boði og hvað stórfyrirtæki megi gera og það þurfi að taka um það pólitískar ákvarðanir.

Vilmundur segir að atvinnulífið sé á heljarþröm. 15 þúsund manns séu atvinnulausir og það liggi í augum uppi að það verði að taka til hendinni.

Gylfi segir ljóst að kjarasamningur ASÍ-félaga hangi enn á bláþræði, eins og hann gerði í júní, og ef hann fari í sundur sjái hann ekki hvað hangi þá eftir af stöðugleikasáttmálanum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×