Skoðun

Erlent fjármagn - já takk

Magnús Orri Schram skrifar

Kanadískt fyrirtæki Magma Energy hefur hug á að eignast 43% hlut til HS Orku. Sorgarsaga málsins nær allt til ársins 2006 þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks veitti heimild fyrir sölu á 16% hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja (HS). Þrátt fyrir að auðlindirnar sjálfar væru þá í eigu fyrirtækisins, tryggði áðurnefnd ríkisstjórn að 16% hluturinn mætti ekki komast í hendur opinberra aðila. Þar með hófst einkavæðingarferli auðlinda hér á landi.

Með breytingu á lögum í júní 2008 var reynt að tryggja að slíkt gæti ekki gerst aftur, þ.e. að auðlindirnar gætu með einhverjum hætti komist í minni- eða meirihlutaeigu einkaaðila. Þá var orkufyrirtækjum skipt í tvo hluta, annars vegar veitufyrirtæki - sem sér um sölu orkunnar til almennings og hins vegar framleiðslufyrirtæki sem sér um orkuvinnsluna. Aukinheldur tryggði lagasetningin að auðlindirnar stæðu fyrir utan þessa skiptingu, og yrðu ætíð í eigu almennings, rétt eins og meirihluti veituhlutans. Hins vegar opnaði lagasetningin á að framleiðslufyrirtækin sem standa í fjárfrekum framkvæmdum og eru í samkeppnisrekstri, gætu verið í eigu einkaaðila. Var slíkt í anda EES samningsins enda erfitt að hindra aðkomu einkaaðila að samkeppnisrekstri.

Lögin heimiluðu ennfremur opinberum aðilum að framselja afnotarétt af auðlindinni til allt að 65 ára í senn og að handhafi tímabundins afnotaréttar ætti möguleika á viðræðum um framlengingu þegar helmingur umsamins tíma er liðinn.

Eigandi jarðhitaauðlindanna á Reykjanesi - Reykjanesbær hefur nú gengið frá samningi við HS Orku um þennan afnotarétt og gengur sá samningur alveg útá ystu nöf- ef hann er ekki beinlínis ólöglegur.

Þar er HS Orku tryggður réttur til framlengingar afnotasamnings 65 ár til viðbótar - eða 130 ár alls. Að mínu mati hafa Reyknesingar farið þvert á anda laganna með þessu ákvæði og því réttast að endurskoða samninginn.

Ég tel hins vegar rangt að ríkið eigi að stíga inn í kaup Magma og hindra þannig söluna. Um er að ræða 12,2 milljarða króna og framundan er svo milljarða fjárfesting á svæðinu. Ríkið á ekki þá fjármuni til reiðu og ef þeir væru til reiðu, ætti frekar að nýta þá til fjárfestinga í orkuiðnaði, heldur en til að taka yfir kaup á hlutabréfum. Framundan er erfiður vetur, niðurskurðar á fjárlögum upp á milljarðatugi og væri nær að fagna þeirri innspýtingu inn í okkar efnahagslíf sem aðkoma Magma er. Við megum ekki gleyma því að ef við ætlum að hindra erlent eignarhald, þá þurfa fyrirtækin að leita eftir erlendu lánsfé til uppbyggingar. Við núverandi lánshæfismat og himinháar vaxtagreiðslur væri slíkt óráð.

Eignarhald opinberra aðila á auðlindum okkar er mikið hagsmunamál og ber að tryggja. Samningar með einhliða framlengingu til 130 ára og lágmarks afnotagjaldi eru þess vegna vondir samningar. Þess vegna eiga stjórnvöld að skoða hvort áðurnefndir samningar standist nánari skoðun. Það er mér til efs.

Það væri ekki gott skref ef stjórnvöld hindruðu kaup erlendra aðila á HS Orku. Stjórnvöld hafa betri not fyrir tólf þúsund milljónir. Skynsamlega nýtingu auðlinda í þágu almennings á að tryggja með öðrum hætti.

Höfundur er alþingismaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×