Ökumaður á leið Miklubraut í austurátt missti stjórn á bíl sínum klukkan rúmlega eitt í dag og hafnaði uppi á stétt hinu megin við akrein úr mótstæðri átt eftir að hafa keyrt í gegnum grindverk.
Ökumanninn, unga stúlku, sakaði ekki, en henni sagðist aðspurðri nokkuð brugðið. Mildi hlýtur að teljast að bíllinn hafi ekki skollið á bifreið úr hinni áttinni.
„Ég veit ekki hvað gerðist, ég var bara að hugsa um eitthvað og svo rann bíllinn, fór upp á kantinn og hingað," segir ökumaðurinn í samtali við Vísi meðan hún sat hin rólegasta og reykti í bílnum.
Í því kom lögregla aðvífandi, bað fréttamann um að færa sig og færði stúlkuna í járn grunaða um ölvun við akstur.
Nokkuð sá á bílnum, Nissan Patrol, en fremra bretti bílsins hafði rifnað af við áreksturinn við grindverkið.