Innlent

Samstöðufundur: Íslenska þjóðin rísi úr pólitísku hjólförunum

Boðað hefur verið til samstöðufundar á fimmtudag, og er fólk hvatt til að koma með fjölskylduna á Austurvöll. Mynd/Vilhelm
Boðað hefur verið til samstöðufundar á fimmtudag, og er fólk hvatt til að koma með fjölskylduna á Austurvöll. Mynd/Vilhelm

„Við lítum svo á að það sé kominn tími til að við Íslendingar, sem erum sérfræðingar í að rífast innbyrðis, rísi upp úr pólitískum hjólförum og sýni að við erum ein þjóð sem stendur saman þegar skórinn kreppir,“ segir Jóhannes Þ. Skúlason, meðlimur í hinum svokallaða InDefence-hópi.

Hópurinn boðar til samstöðufundar á Austurvelli klukkan 17 á morgun, fimmtudag. Jóhannes tekur fram að ekki sé um mótmæli að ræða, og því sé óþarfi að taka potta og sleifar með.

Jóhannes segir hópinn treysta þingmönnum til að taka réttar ákvarðanir í Icesave-málinu. Fundinum sé því öðru fremur ætlað að sýna umheiminum að Íslendingar vilji sanngjarna lausn á málinu og sætti sig ekki við þá afarkosti sem þeim séu settir.

Á fundinum verða fluttar stuttar ræður og búast má við því að landsþekktir tónlistarmenn troði upp, segir Jóhannes. Hann segir erlenda fjölmiðla hafa boðað komu sína, og því ríði á að sýna samstöðu með því að mæta.

Segja má að fundurinn sé liður í kynningarstarfi sem InDefence-hópurinn hefur skipulagt, og verður fréttum af fundinum fylgt eftir með greinaskrifum um stöðu Íslands og Icesave-málið í erlendum fjölmiðlum, segir Jóhannes.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×