Innlent

Hollensk stjórnvöld höfðu aftur samband við utanríkisráðuneytið

Hollensk stjórnvöld settu sig í samband við utanríkisráðuneytið í gær til að lýsa yfir áhyggjum af frestun Alþingis á afgreiðslu Icesave málsins. Sérstakur sendifulltrúi á vegum utanríkisráðuneytisins fundaði með hollenskum embættismönnum í vikunni vegna málsins.

Þetta er í annað skiptið í þessari viku sem hollensk stjórnvöld setja sig í samband við íslensk stjórnvöld vegna Icesave málsins. Á þriðjudaginn hringdi Maxime Verhagen, utanríkisráðherra Hollands, í Össur Skarphéðinsson, en fram kom í hollenskum fjölmiðlum að Verhagen hafi meðal annars sagt að Íslendingar verði að samþykkja Icesave samkomulagið, ellegar muni hollenska þingið beita sér gegn aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Frestun þingfunda fram yfir verslunarmannahelgi og þar af leiðandi afgreiðsla Icesave málsins varð til þess að hollenskir embættismenn settu sig aftur í samband við utanríkisráðuneytið í gær.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir að Hollendingar hafi fyrst og fremst verið að afla sér upplýsinga um stöðu mála. „Hollendingar hafa ekkert sendirráð hér og þeir skilja ekki vel hvernig staðan er hérna. Hún er flókin og snúin en hins vegar liggur það alveg ljóst fyrir að við sem erum í ríkisstjórninni höfum sagt alveg klárt og kvitt, að við erum að gera það sem við getum til þess að Alþingi, eftir að hafa gefið sér þann tíma sem það þarf, samþykki þess samninga," segir Össur.

Martin Eyjólfssson, sviðsstjóri í utanríkisráðuneytinu var einnig sendur til Hollands í vikunni í kjölfar ummæla Verhagen. Átti hann meðal annars fund með embættismönnum innan hollenska utanríkisráðuenytisns til að skýra sjónarmið Íslendinga í málinu.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×