Viðskipti innlent

Ríkið græðir ekkert á sölu hlutafjár

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og þingmaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og þingmaður Vinstri grænna. Mynd/Pjetur
Í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins frá því á mánudag segir að ríkið muni leggja fram hlutafé að upphæð 60 milljarða til Íslandsbanka og 70 milljarða til Kaupþings þann 14. ágúst næstkomandi. Glitnir og Kaupþing, þ.e. skilanefndir bankanna í umboði erlendra kröfuhafa, eigi þess kost að kaupa þetta hlutafé í nýju bönkunum.

Jón Steinsson, lektor við Colombia háskóla í Bandaríkjunum, spurði í gær á hvaða kjörum þessi hlutafjárviðskipti og lánveitingar til bankanna færu fram.

Samkvæmt Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, er ekki um eiginleg hlutafjárviðskipti að ræða, heldur gefst kröfuhöfunum kostur á að fjármagna bankana sjálfir, og gengur þá framlag ríkisins til baka um 35 milljarða í tilviki Íslandsbanka og 38 milljarða í tilviki Nýja Kaupþings.

Þá mun ríkisstjórnin veita hvorum banka um sig víkjandi lán að upphæð 25 milljörðum króna, auk þess sem Nýja Kaupþing fengi átta milljarða eiginfjárframlag.

Hugsanlega mun Fjármálaeftirlitið gera aðrar fjármögnunarkröfur til kröfuhafanna en stjórnvalda. Það myndi þó ekki hafa nein áhrif á hlutafjárframlagið sem slíkt sem einfaldlega yrði bakfært um ofangreindar upphæðir. Ávöxtun hlutafjárins vegna eigendaskiptanna væri því engin.

Ef kröfuhafarnir ganga ekki að samkomulaginu eiga þeir hins vegar kauprétt á hlutafénu árin 2011 til 2015. Kjósi þeir að nýta sér hann segir Steingrímur ljóst að hlutaféð yrði ekki selt á nafnverði heldur með fullum vöxtum og álagi.

„Ríkið fengi því mjög góða ávöxtun," segir Steingrímur.

Hann segir ekki hafa verið gengið endanlega frá lánasamningum vegna víkjandi lána bankanna, og því liggi kjör þeirra ekki fyrir.


Tengdar fréttir

Segir mikilvægum spurningum ósvarað um bankauppgjörið

Jón Steinsson lektor í hagfræði við Columbia háskólann segir að mikilvægum spurningum sé ósvarað hvað varði uppgjör og eignarhald á nýju bönkunum. Hinsvegar telur hann fagnaðarefni að kröfuhafar eigi þess kost að eignast Íslandsbanka og Nýja Kaupþing að mestu eða öllu leyti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×