Innlent

Handtekin fyrir óhlýðni

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Heiða handtekin.
Heiða handtekin. Mynd/lillo.blog.is

Heiða B. Heiðarsdóttir, frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar fyrir síðustu kosningar, er ein þeirra sem var handtekin á Austurvelli fyrir framan alþingishúsið í dag. Hún hafði að eigin sögn sýnt af sér borgaralega óhlýðni til að mótmæla aðferðum ríkisstjórnarinnar í málefnum Icesave.

Heiða er óánægð með að yfirvöld hafi ekki farið dómstólaleiðina í Icesave málinu og vill að leyndarhjúpnum verði létt af samningaviðræðunum.

Í mótmælaskyni settist hún ásamt fleirum á miðja götuna beint fyrir framan þinghúsið. „Við sátum þarna á miðri götunni og bílarnir komust ekki fram hjá okkur nema fara upp á gangstétt," segir Heiða, en segir flesta síðan hafa áttað sig og farið inn Pósthússtrætið í staðinn. „Við vorum ekkert að loka Miklubrautinni," segir Heiða og þykir óhlýðnin hafa verið í sinni vægustu mynd.

Heiða var vöruð við og beðin um að fara af götunni. Hún gaf sig ekki og þegar hún reyndi að malda í móinn var hún handtekin og færð aftan í lögreglubíl. Hún segir aðspurð að þó aðfarirnar hafi ekki verið harkalegar sé hún afar ósátt við viðbrögð lögreglu.

„Þetta eru mótmæli sem eru friðsöm í rauninni. Ég veit að maður á að hlýða lögreglu, en borgaraleg óhlýðni snýst einmitt um svona vægar aðgerðir, að vera fyrir, vera flugan í tjaldinu."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×