Erlent

Fátækrahverfi með eigin banka og gjaldmiðil

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Íbúi í Palmeiras fær 100 palma lánuð í bankanum.
Íbúi í Palmeiras fær 100 palma lánuð í bankanum. MYND/Reuters

Í borginni Fortaleza í Norðaustur-Brasilíu er fátækrahverfi sem heitir Palmeiras. Þar er heimili 32.000 manns. Palmeiras er þó ef til vill ekki hefðbundið fátækrahverfi. Það heldur úti sínum eigin gjaldmiðli sem kallast palma og hefur sinn eigin banka þótt húsnæðið sem hann er í sé svo sem ekki í neinum Wall Street-stíl. Það er að hruni komið.

Hagkerfi Palmeiras er þó langt frá hruni. Það er sjálfu sér nægt og hefur vaxið töluvert síðan fyrir áratug þegar fólk varð að leita í önnur hverfi eftir klippingu. Hagstæð vaxtalaus lán hverfisbankans hafa hjálpað fjölda manns að koma á fót alls konar verslun og þjónustu. Bankastjórinn Joaquin de Mello segir skýringuna einfalda. Ástæðan fyrir fátæktinni í hverfinu hafi ekki verið sú að fólk ætti ekki peninga heldur að það væri að tapa peningum. Peningarnir væru að fara út úr hverfinu og inn í önnur hverfi sem blómstruðu.

Nú hafa hlutirnir breyst til batnaðar og í bankanum er alltaf röð langt út á götu. „Við erum ótrúlega heppin," segir kona sem nýlega opnaði lítinn bar á götuhorni ásamt manni sínum. Bankinn lánaði fyrir því. Við hliðina á barnum rekur sonur þeirra hjólbarðaverkstæði sem bankinn lánaði einnig fyrir. Þeirra ráðleggingar til Wall Street: Haldið ykkur við hverfið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×