Erlent

Svínaflensan til Bretlands - yfir 700.000 gætu látist

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Mikill viðbúnaður er í Mexíkó vegna flensunnar en þessi mynd sýnir vopnaða verði við dyr sjúkrahúss.
Mikill viðbúnaður er í Mexíkó vegna flensunnar en þessi mynd sýnir vopnaða verði við dyr sjúkrahúss.

Tvö tilfelli af svínaflensu greindust í Skotlandi í gær auk þess sem hún er talin vera komin til fleiri Evrópulanda, þeirra á meðal Noregs og Svíþjóðar.

Það voru tveir skoskir ferðamenn, sem komu úr ferðalagi til Mexíkó í síðustu viku, sem greindust með flensuna. Tuttugu og tveir einstaklingar sem þessir tveir hafa umgengist eru þegar komnir í lyfjameðferð en sjö þeirra sýna væg einkenni flensunnar. Staðfest hefur verið að sjúkdómurinn sé kominn til Spánar en einnig leikur grunur á því að fólk hafi sýkst í Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi og Frakklandi.

Í Mexíkó eru 149 staðfest dauðsföll af völdum flensunnar en upp undir 1.500 hafa greinst með hana. Viðbúnaðarstig Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar hefur af þessum sökum verið hækkað úr þremur stigum í fjögur en stigin eru alls sex. Viðbúnaðarstig fjögur táknar að hætta sé á því að veiran valdi faraldri.

Í heildina leikur grunur á að 25 manns hafi sýkst af flensunni í Bretlandi og hefur þegar verið gripið til þess ráðs að kanna ástand fólks sem er að koma til landsins. Svörtustu spár breskra heilbrigðisyfirvalda gera ráð fyrir því að yfir 700.000 geti látist fái helmingur Breta flensuna.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×