Innlent

Hvorki nemendum, foreldrum, né samkennurum tilkynnt um barnaklámsmálið

Menntaskólakennari í Kópavogi var í dag dæmdur fyrir að hafa barnaklám í fórum sínum. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann sinnti kennslu í dag. Skólastjórinn hafði ekki fyrir því að tilkynna nemendum, foreldrum eða samkennurum um málið.

Málið komst upp eftir að lögreglu barst ábending um að barnaklám væri að finna í tölvu menntaskólakennarans Björgvins Þórissonar. Lögregla aflaði sér heimildar og framkvæmdi húsleit á heimil Björgvins í Breiðholti. Þar fundust 80 ljósmyndir og 88 hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.

Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur Björgvini og krafðist fangelsisvistar. Héraðsdómur Reykajvíkur dæmdi hann hins vegar til þess að greiða 250 þúsund krónur í sekt auk þess sem barnaklámið var gert upptækt.

Héraðsdómur kvað upp dóm í málinu í dag. Á sama tíma var Björgvin við kennslu hér í menntaskólanum. Þegar við leituðum viðbragða við þessu kom í ljós að langfletstir sem við ræddum við í skólanum höfðu ekki heyrt af barnaklámsmáli enskukennars, en hann er jafnframt fagstjóri í MK.

Á meðal þeirra sem höfðu ekki heyrt af málinu þegar fréttastofa leitaði viðbragða í dag var nemendafélag og foreldrafélag skólans. Forsvarsmenn þessara félaga treystu sér ekki í viðtal þar sem þeir voru enn að afla upplýsinga um málið.

Sem fyrr segir var Björgvin við kennslu í allan dag. Fréttastofu er ekki kunnugt um hvort honum hafi verið sagt upp störfum en í lögum um framhaldsskóla segir að ekki megi ráða einstakling til starfa sem gerst hefur sekur um kynferðisbrot eins og þetta. Margrét Friðriksdóttir skólameistari í MK vildi engum spurningum svara um málið í dag. Hún vildi ekki svara því hvort Björgvin yrði áfram við störf í skólanum né afhverju foreldrum og nemendum hefði ekki verið greint frá málinu. Ekki náðist í Björgvin Þórisson þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×