Innlent

Grínast með hugmyndina um 20% niðurfellingu skulda

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra og Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrum efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og núverandi frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra og Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrum efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og núverandi frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, skýtur föstum skotum að Tryggva Þór Herbertssyni, fyrrum efnahagsráðgjafa og núverandi frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaðinu í dag. Gylfi gerir grín af hugmyndinni um 20% niðurfellingu skulda í dæmisögu um þá Tryggva, Þór og Herbert sem eiga í viðskiptum. Bæði Framsóknarflokkurinn og Tryggvi Þór hafa talað fyrir því að 20% skulda einstaklinga verði felldar niður.

,,Tryggvi og Þór skulda hvor um sig Herberti 10 milljónir. Tryggvi er vel stæður, með góðar tekjur og á ekki í neinum vandræðum með að standa í skilum. Þór er hins vegar afar illa stæður og fyrirséð að hann mun ekki geta greitt neitt af láni sínu. Það er því ljóst að af þeim 20 milljónum sem þeir félagar skulda samanlagt munu einungis 10 milljónir innheimtast. Herbert veit þetta vel, enda keypti hann skuldabréf þeirra Tryggva og Þórs á hálfu nafnverði, vitandi að helmingur skuldarinnar væri tapaður," segir í dæmisögu Gylfa.

Því næst berst fyrirskipun frá stjórnvöldum um að afskrifa skuli 20% allra skulda. ,,Því fagnar Tryggvi, enda fær hann þá tvær milljónir gefnar frá Herberti, sem hann þó hafði enga þörf fyrir. Hann fer að velta því fyrir sér hvort hann ætti frekar að kaupa sér vélsleða eða mótorhjól."

Gylfi segir að Þór láti sér aftur á móti fátt um finnast enda sé hann í jafnslæmum málum hvort sem hann skuldar átta eða 10 milljónir sem hann getu ekki greitt. Vandi hans sé áfram óleystur. ,,Nú hefur hins vegar bæst við vandi Herberts, sem hefur tapað tveimur milljónum. Hann klórar sér í hausnum yfir því, enda skilur hann ekki hvernig hann á að nota tapaða kröfu á Þór til að finna tvær milljónir til að gefa Tryggva."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×