Viðskipti innlent

Sparisjóðabankinn fundaði með FME um helgina

Fjármálaeftirlitið (FME) átti fundi með forráðamönnum Sparisjóðabankans um helgina samhliða viðræðunum við forráðamenn Straums. Á þessum fundum var erfið staða Sparisjóðabankans til umfjöllunnar.

Agnar Hansson forstjóri Sparisjóðabankans segir í samtali við Fréttastofu að hann telji ekki að skilanefnd sé á leiðinni til að taka yfir Sparisjóðabankann að svo stöddu. „En Fjármálaeftirlitið er sjálfstæð stofnun og mun örugglega grípa inn í hjá okkur ef þeim þykir ástæða til þess," segir Agnar.

Fram kemur í máli Agnars að þeir hafi fengið frest fram til 28. mars til að vinna að endurskipulagningu bankans. „Við teljum að sá frestur standi enn og við erum að vinna úr hugmyndum sem fram hafa komið um framtíðarlausn á málefnum bankans," segir Agnar.

Þarna á Agnar við það að fyrir nokkru tókst í fyrsta sinn að koma á fundi með stýrihópi erlendra kröfuhafa bankans og fulltrúum stjórnvalda. Þar voru til umræðu hugmyndir um niðurfellingu á skuldum bankans, lengingu á lánum hans á hagstæðum kjörum og skuldabreytingar á skuldum yfir í hlutafé.

„Við erum að vinna úr þessum hugmyndum núna og sú vinna er í fullum gangi," segir Agnar.

Eins og fram hefur komið í fréttum glímir Sparisjóðabankinn við skuldir upp á um 150 milljarða kr. sem er um tífalt eigið fé bankans eins og það var skráð um mitt ár í fyrra. Af þessari upphæð eru 70-75 milljarðar í höndum ríkisvaldsins eftir veðkall Seðlabankans á hendur Sparisjóðabankanum fyrir áramótin.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×