Viðskipti innlent

Fengu verkefni þrátt fyir að uppfylla ekki skilyrði

Tiboði HBH, verktakafyrirtækis í meirihlutaeigu Róberts Wessman, stærsta styrktaraðila Háskólans í Reykjavík, í verk við nýbyggingu skólans hefur verið tekið. Fyrirtækið uppfyllir ekki útboðsskilmála þar sem það er í vanskilum með lífeyrissjóðsiðgjöld.

Byggingarvinna við nýbyggingu Háskólans í Reykjavík í Öskjuhlíð hófst í desember 2007. Byggingin þykir með þeim glæsilegri og komu danskir arkitektar frá Henning Larsens að hönnuninni. Nýlega var boðið út verk sem snýr að innihurðum í allt húsið, um 600 talsins. 12 aðilar skiluðu inn tilboðum og var tilboði HBH framkvæmda ehf tekið.

Fyrirtækið var með þriðja lægsta boð eða 118 milljónir. Þau fyrirtæki sem voru með lægri boð gerðu ráð fyrir erlendu vinnuafli og gengistryggingu og voru þess vegna valin frá. HBH er í meirihlutaeigu Salt Constructions sem er dótturfélag Salt Investments. Það félag er í eigu Róberts Wessman en hann lagði fram 1 milljarð króna sem hlutafé og framlag í Þróunarsjóð Háskólans í Reykjavík. Í útboðsgögnum frá eignarhaldsfélaginu Fasteign hf sem sér um byggingu, fjármögnun og eignarhald byggingarinnar, kemur fram að ef bjóðandi sé í vanskilum með lífeyrissjóðsiðgjöld starfsmanna verði ekki gengið til samninga við hann.

Samkvæmt gögnum sem fréttastofa hefur undir höndum hefur íslenski lífeyrissjóðurinn birt greiðsluáskorun á HBH framkvæmdir. Þá er vanskilaskrá fyrirtækisins þrjár A-4 síður auk þess sem líkur á fyrirtækið geti ekki staðið í skilum eru 77%. HBH hefur áður fengið verk í nýbyggingu HR en það var í tengslum við endurbyggingu á Nauthól veitingastaðnum sem er tengdur háskólanum. Það verk er upp á tæpar 200 milljónir.

Framkvæmdastjóri HBH sagði í samtali við fréttastofu að ekki hafi verið skrifað undir verksamning. Hann segir unnið að endurfjármögnun fyrirtækisins og að það muni uppfylla útboðsskilyrði áður en skrifað verði undir verksamning. Róbert Wessman sagði í samtali við fréttastofu að hann vissi lítið um málið og benti á samstarfsfélaga sína.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×