Innlent

Rúmlega 900 látnir í umferðinni á 40 árum

Frá minningarathöfninni við Dómkirkjuna.
Frá minningarathöfninni við Dómkirkjuna. MYND/Anton Brink

916 manns hafa látist í umferðarslysum á síðustu 40 árum, eða frá því að hægri umferð var tekin upp, samkvæmt upplýsingum Umferðarráðs. Það stendur nú fyrir umferðaröryggisviku. Bent er á að það jafngildi því að allir íbúar Bolungarvíkur eða Blönduóss hefðu látist. Þessi fjöldi dugir einnig til að fylla fjórar Boeing 757 þotur.

Minningarathöfn vegna þeirra sem látist hafa hófst klukkan eitt við Dómkirkjuna þar sem nemendur í Listaháskóla Íslands röðuðu 916 skópörum fyrir framan kirkjuna og til hliðar við hana. Einnig stendur yfir kyrrðarstund í Dómkirkjunni fram til klukkan fjögur.

„Umferðarráð vill nota tækifærið og biðja menn um að hugleiða eftirfarandi: Koma hefði mátt í veg fyrir flest þessara slysa með aðgát, tillitssemi og ábyrgð ökumanna. Ábyrgð sem krefst þess að menn séu með fulla athygli, allsgáðir, noti tilheyrandi öryggisbúnað og aki samkvæmt aðstæðum," segir í tilkynningu.

Ef skoðað er hlutfall helstu orsakavalda banaslysa í umferðinni undanfarin 5-10 ár og það reiknað af þessum fjölda kemur í ljós að allt að 150 einstaklingar hafa látist vegna aksturs eftir neyslu áfengis eða annarra vímuefna, að 244 þeirra sem létust hafi verið undir tvítugu og að um 180 einstaklingar hafi látið lífið af völdum hraðaksturs. Enn fremur að um 120 einstaklingar hafi látið lífið vegna þess að ekki voru notuð bílbelti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×