Enski boltinn

Van Persie treystir súkkulaðifætinum

NordicPhotos/GettyImages

Hollenski framherjinn Robin Van Persie hjá Arsenal segist handviss um að aukin áhersla hans á skotæfingar með súkkulaðifætinum séu farnar að skila tilætluðum árangri.

Hér er átt við hægri fót kappans, sem fram að þessu hefur ekki reynst honum sérstaklega vel í skotunum.

Van Persie er, eins og margir vinstrifótarmenn, átakanlega einfættur. Þetta stendur nú til bóta.

Van Persie skoraði bæði mörk Arsenal í sigrinum gegn Chelsea á dögunum og segir að bætt skottækni með hægri fæti sé algjört lykilatriði fyrir sig.

"Jákvæð hugsun er lykillinn fyrir mig. Ég veit að ég get skotið með hægri. Auðvitað er sá vinstri betri, en þetta snýst allt um trú manns á lakari fætinum. Í Hollandi köllum við hann súkkulaðifótinn," sagði Van Persie í samtali við Daily Telegraph.

"Þegar ég fæ marktækifæri, hugsa ég jákvætt. Ég hugsa með mér að þetta sé gott færi fyrir hægri fótinn. Ég geti nýtt það. Ég held að maður klikki á miklu fleiri færum með súkkulaðifætinum ef maður hugsar neikvætt. Núna hugsa ég jákvætt ef ég fæ færi upp á hægri fótinn og lít á það sem gott tækifæri. Þetta er svona einfalt," útskýrði Hollendingurinn.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×