Innlent

Kaldur í sálinni eftir jólanætur í hesthúsi

Hlúð er að hrossunum í húsi í Mosfellsbæ. Af ótta við smit hefur húsið verið girt af. Flest eftirlifandi hrossa eru á batavegi.
Hlúð er að hrossunum í húsi í Mosfellsbæ. Af ótta við smit hefur húsið verið girt af. Flest eftirlifandi hrossa eru á batavegi. Fréttablaðið / daníel

„Það er hræðilega dapurlegt þegar þetta er að drepast í höndunum á manni,“ segir þingmaðurinn Árni Páll Árnason, sem hefur varið drjúgum hluta jólanna í hesthúsi í Mosfellsbæ að hjúkra fársjúkum hestum og hjálpa til við að aflífa þá. Hann hefur misst einn hest og á annan við dauðans dyr.

Nú eru 22 hestar dauðir vegna salmonellusýkingarinnar sem kom upp fyrir viku á Kjalarnesi. Þrjú til fjögur hross til viðbótar eru alvarlega veik, en hin eru á batavegi. Alls var 41 hross í stóðinu sem veiktist.

Talið er fullvíst að sýkingin hafi borist úr settjörn í bithaganum, en í henni greindist salmonella.

Árni fór fyrst að huga að hestunum síðla á aðfangadagskvöld og sat við langt fram á jólanótt. Síðan hefur hann farið daglega upp í hesthús með Sigrúnu konu sinni, jafnvel oft á dag, og eytt þar mörgum nóttum. „Þetta hefur verið alveg furðuleg lífsreynsla, og er ekki búin enn þá,“ segir Árni, sem var á leið í Mosfellsbæinn í gærkvöldi í þriðja sinn í gær.

Á annan jóladag missti Árni hestinn Asa, sem var orðinn sextán vetra gamall og hafði fylgt honum í sjö ár. Hinn, Áki, er átta vetra og tvísýnt er um örlög hans. „Þetta er enn djöfulli dapurlegt því maður reynir og reynir en hefur ekki enn séð neinn árangur hjá sínum eigin hrossum. En maður sér þó árangur hjá annarra manna hrossum sem maður hefur hjálpað til við að koma á lappir.“

Árni segist aldrei hafa upplifað annað eins. „Það var sérstaklega erfitt þegar maður var að bera út svona þrjú til fimm á dag. Maður verður svolítið kaldur í sálinni við það,“ segir hann. „Það er búið að vera alveg með ólíkindum að horfa upp á þetta. Þetta eru svo fárveik dýr.“

Og Árni er ekki alls kostar sáttur við hvernig tekið var á málum. „Ég er svolítið hissa á hvað viðbrögð yfirvalda voru bæði fálmkennd og hæg í byrjun. Það skorti á samhæfingu og að það væri sett á einhver verkefnisstjórn,“ segir hann en bendir þó á að menn hafi aldrei þurft að eiga við eins stóra sýkingu. Skoða þurfi málið þegar rykið er sest.

Árni var vongóður áður en hann hélt af stað í gærkvöldi. „Maður kemur sér nú upp ákveðnu æðruleysi í þessu en auðvitað vonast maður til að geta hnoðað í þetta lífi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×