Innlent

AGS: Mun meira skorið niður í næstu fjárlögum

Ákvörðun um það hvort taka eigi upp evruna er ekki aðalatriði í því sem Ísland þarf að takast á við á þessu augnabliki. Þetta kom fram í máli Poul Thomsen, yfirmanns sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, á fundi með blaðamönnum í utanríkisráðuneytinu í dag. Thomsen sagðist vita til þess að umræðan um framtíðargjaldmiðil færi fram en það væri ekki aðal viðfangsefni núna heldur að fást við fjárlögin.

Thomsen segir að niðurskurður í núverandi fjárlögum sé hóflegur, en fyrir 2010 verði hann mun meiri. Kostnaðurinn við að endurreisa bankakerfið og endurfjármagna Seðlabankann sé á bilinu 85 til 90 prósent af landsframleiðslu sem sé mjög hátt hlutfall. Hins vegar sé um 60 prósent af þeim kostnaði innlendur og þess vegna hvíli endurreisnin mest á því að taka til heimafyrir.

Thomsen sagði að áætlun Íslendinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að styrkja krónuna gengi vel. Árangurinn mætti þakka bæði þeim gjaldeyrishöftum sem lögð hefðu verið á og aðhaldssamri peningamálastefnu með háum vöxtum.

Hann teldi að búið væri að ná pólitískri samstöðu um að þessi niðurskurður ætti sér stað, en það ætti eftir að fara betur yfir hvernig sá niðurskurður yrði í framkvæmd. Ekki væri æskilegt að skera of mikið niður fyrir árið 2009. Það myndi auka enn frekar á kreppuna. Hins vegar þyrfti að skera niður á fjárlögum árið 2010.

Thomsen sagði að hann væri ekki í neinum vafa um það að Íslendingar gætu staðið við skuldbindingar vegna lána frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þegar að gjaldmiðillinn væri orðinn starfhæfur.










Tengdar fréttir

AGS með fastan fulltrúa á Íslandi

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur skoðað að hafa fastan fulltrúa á Íslandi á næstu misserum, meðan á samstarfi sjóðsins og íslenskra stjórnvalda stendur í tengslum við neyðarlán sjóðsins sem samþykkt var að veita Ísland í haust.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×