Viðskipti innlent

Lánuðu sjálfum sér

Nítján svonefndar stórar áhættuskuldbindingar voru hjá stóru bönkunum þremur, um síðustu áramót. Heildarfjárhæð þessara skuldbindinga var ríflega 930 milljarðar króna og um 95 prósent af eiginfjárgrunni bankanna.

Þetta kemur fram í fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans sem gefin var út í vor.

Þar segir enn fremur að stórum áhættuskuldbindingum hafi fjölgað um fjórar frá árinu áður, en fjárhæðin yfir 380 milljarða króna.

Aukningin skýrðist „að nokkru leyti af hækkun á fyrirgreiðslu við einstaka viðskiptamenn," og tengda aðila sem myndi stórar áhættuskuldbindingar í fleiri en einum banka. Dæmi væru um að hinir sömu væru jafnframt meðal stærstu hluthafa bankanna, sem var áhyggjuefni að mati Seðlabankans.

Stór áhættuskuldbinding er samkvæmt skilgreiningu, skuldbinding fyrirtækis vegna viðskiptamanns eða fjárhagslega tengds aðila sem nemur tíu prósentum eða meira af eiginfjárgrunni fyrirtækis.

Seðlabankinn benti líka á að ríflega þrettán prósent heildarútlána samstæðna viðskiptabankanna væru með veði í hlutabréfum. Þá nam lánsfjárhæðin tæplega 970 milljörðum króna. Tæp 40 prósent bréfa til tryggingar útlánum voru skráð í Kauphöll íslands og námu hátt í fimmtungi af markaðsverði allra skráðra bréfa um síðustu áramót.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×