Innlent

Segir Róbert Wessmann hafa skoðað skurðstofur

MYND/Vilhelm

Róbert Wessmann, stjórnarformaður Salt Investments, var á ferðinni á dögunum með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins að skoða Heilbrigðsstofnun Suðurnesja og sýndi skurðstofum sem til stendur að loka mikinn áhuga. Þetta fullyrðir Helga Sigrún Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Helga Sigrún spurði Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra um það á þingi í morgun hvað einn af þekktustu auðmönnum landsins hefði verið að gera á heilbrigðisstofnuninni en nefndi ekki nafn mannsins. Ráðherra sagði að hann gæti ekki svarað til um einstakar heimsóknir.

Þegar Vísir hafði samband við Helgu eftir umræðuna sagði hún umræddan auðmann vera Róbert Wessmann. Hún hefði þær upplýsingar að fulltrúar frá heilbrigðisráðuneytinu hefðu nýverið komið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til úttektar í tvo daga. „Á þriðja degi mætir Róbert Wessmann með þeim að skoða allt hátt og lágt og þar á meðal skurðstofurnar," segir Helga og bendir á að þegar hafi komið fram þau tilmæli að loka skurðstofunum.

Helga segir athyglisvert að í svari sínu hafi heilbrigðisráðherra minnst á þá hugmynd að flytja inn sjúklinga. „Á að taka þjónustu frá fólkinu suður frá, fæðingarþjónustu sem talin hefur verið ein sú besta á landinu, til þess að færa það í hendurnar á einhverjum sem enn eiga einhverja peninga," spyr Helga og segist ekki sjá betur en þetta sé hluti af einkavæðingarstefnu heilbrigðisráðherra.

Helga bendir enn fremur á að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafi haft mun minna fé en sambærilegar stofnanir, til að mynda sjúkrahúsin á Akranesi og Selfossi. Heilbrigðsstofnunin hafi haft 56 prósent af fé Sjúkrahússins á Akranesi og 78 prósent af fé Heilbrigðsstofnunar Suðurlands. „Ofan á þetta eiga menn að skera niður um tíu prósent og loka skurðstofum," segir Helga.

Vísir reyndi að ná tali af Róberti fyrir hádegi en hafði ekki erindi sem erfiði en skildi eftir skilaboð til hans. Þá náðist heldur ekki í aðstoðarmanna heilbrigðisráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×