Viðskipti innlent

Segir Davíð Oddsson hafa hótað því að taka Kaupþing niður

Sigurður Einarsson
Sigurður Einarsson

Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings segir að þeim Davíði Oddssyni hafi lent illilega saman á fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington í fyrra. Davíð hafi meðal annars hótað Sigurði að taka bankann niður ef þeir hættu ekki við umsókn sína um að fá að gera upp í evrum. Hann segir samskipti Seðlabankans við yfirstjórn Kaupþings hafa snarminnkað eftir að Davíð varð seðlabankastjóri.

Sigurður segist hafa fundið fyrir óvild Davíðs í garð Kaupþings frá árinu 1997 þegar fjárfestingarbanki atvinnulífsins var seldur. „Sú óvild hefur verið viðvarandi allar götur síðan," sagði Sigurður og bætti því við að mjög óþægilegt hefði verið að reka stærsta banka landsins og hafa það á tilfinningunni „að öllum brögðum sé beitt til þess að koma á manni höggi, og að sú ágjöf komi frá æðstu mönnum þjóðarinnar."

Sigurður sagðist hafa ýmsilegt fyrir sér í því og sagði að Kaupþingsmönnum hefði alltaf fundist sérkennilegt að Davíð hefði verið skipaður seðlabankastjóri eftir það sem á undan var gengið. Nægir þar að nefna gjörninginn þegar Davíð tók út allt sparifé sitt úr Búnaðarbankanum, en þá var hann forsætisráðherra landsins.

Björn Ingi sagðist síðan hafa heimildir fyrir því að Sigurði og Davíð hefði lent saman á fundi alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington. „Úr því þú spyrð, þá get ég staðfest að það er rétt," sagði Sigurður og bætti við að samskipti seðlabankans og yfirstjórnar Kaupþings hefði snarminnkað við þetta.

Sigurður sagði að hluti af rifrildinu hefði snúið að því að Kaupþing hafði á þessum tíma lagt inn umsókn um að fá að gera upp í evrum.

„Ég hef nú ekki mikla löngun í að vitna í svona samtöl en hann lét mjög óþægileg orð falla," sagði Sigurður sem staðfesti að Davíð hefði m.a hótað því að „taka þá niður" eins og hann orðaði það.

„Mér var auðvitað mjög brugðið og ræddi þetta við mína nánustu samstarfsmenn."

Aðspurður hvort þetta hefði verið ástæða þess að þeir hefðu hætt við að sækja um að fá að gera upp í evrum sagði Sigurður það hafa mætt mikill andstöðu í Seðlabanknaum og sú andstaða hefði verið byggð á mjög misráðandi rökum.

„Við vorum jafnframt kallaðir ítrekað á fund í fjármálaráðuneytinu. Við töldum síðan að það væri ekki við hæfi að við værum í átökum við Seðlabankann og fjármálaráðuneytið. Fjármálaráðherra sagði að hann vildi síður þurfa að úrskurða í þessu máli og því drógum við umsókina til baka."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×