Innlent

Vilja ítarlega rannsókn á skuldsetningu bankakerfisins

Ögmundur Jónasson er formaður BSRB.
Ögmundur Jónasson er formaður BSRB. MYNDÞÖK
Aðalfundur BSRB hafnar því að almennt launafólk beri allan herkostnað af bruðli og óhófi undangenginna ára og vill ítarlega rannsókn á því hverjir eru ábyrgir fyrir skuldsetningu bankakerfisins og þar með þjóðarinnar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktun bandalagsins sem samþykkt var í dag.

Þar segir einnig að miklar hættur steðji að íslensku þjóðfélagi. Hrun fjármálafyrirtækja og hömlur á gjaldeyrisviðskipti hafi þegar valdið miklum búsifjum og geti leitt til keðjuverkandi hruns í atvinnulífinu með atvinnuleysi og þrengingum.

Við þær aðstæður þurfi að að efla alla grunnþjónustu og öflugt velferðarkerfi geri okkur kleift að standa af okkur áföllin. Með samstöðu og samheldni muni þjóðinni takast að vinna bug á erfiðleikunum enda undirstöður efnahagslífsins traustar. BSRB segir þó að forsendur samstöðunnar séu jöfnuður og félagslegt réttlæti. Það beri vott um ófyrirleitni og botnlaust dómgreindarleysi þegar hátekjufólk kalli eftir samstöðu lágtekjufólks án þess að heita jafnframt stuðningi við róttækar jöfnunaraðgerðir. Er því hafnað að almennt launafólk beri allann herkostnaðinn af óráðsíu og bruðli undanfarinna ára.

Bandalagið segir fjármálamenn og stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækja hafa skuldsett samfélagið á óábyrgan og siðlausan hátt. Krefst BSRB ítarlegrar rannsóknar þar sem leitt verði í ljós hverjir séu ábyrgir fyrir skuldsetningu bankakerfisins og þar með þjóðarinnar. Þá segja samtökin að íslensk stjórnvöld megi ekki rasa um ráð fram og undirrita samninga sem bindi komandi kynslóðir um langa framtíð fyrr en álitamál hafi verið til lykta leidd.

BSRB segir að snúa þurfi bökum saman og efla gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og menntakerfi, félagsþjónustu og félagslegt húsnæðiskerfi. Þá þurfi að efla löggæslu og almannavarnir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×