Innlent

Grunaður morðingi og franskur ríkisborgari meðal hælisleitenda á Íslandi

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Lögregla gerði húsleit hjá hælisleitendum síðastliðinn föstudag.
Lögregla gerði húsleit hjá hælisleitendum síðastliðinn föstudag. MYND/Víkurfréttir
„Venjulega leiðir það að uppfylla ekki skilyrði til landgöngu til þess að fólki sé snúið frá landi, en um leið og viðkomandi segir lykilorðið „hæli“, þá opnum við dyrnar og bjóðum þá velkomna heim, látum þá hafa kort í sund og fæði og húsnæði, án þess í raun að vita hverjir þeir eru," segir Eyjólfur Kristjánsson fulltrúi lögreglustjórans á Suðurnesjum. Hann segir óþægilegt til þess að vita að menn séu hér frjálsir ferða sinna án þess að vitað sé hverjir þeir eru.

Fyrir um tveimur árum dvaldi hér á landi hælisleitandi sem svo reyndist vera eftirlýstur fyrir morð í Grikklandi. Eyjólfur segist muna eftir einu tilviki þar sem hælisleitandi reyndist við nánari eftirgrennslan vera franskur ríkisborgari, með dvalarleyfi í Danmörku. Eru menn þá að villa á sér heimildir til að flýja vafasama fortíð í heimalandinu? „Það er góð spurning," segir Eyjólfur. „Hvað skyldi fá franskan ríkisborgara til að sækja um hæli á Íslandi? Það hlýtur að vera eitthvað sem rekur þá frá Frakklandi annað en maturinn."

Eyjólfur segir að í flestum tilfellum liggi ekki fyrir með óyggjandi hætti hver hælisleitandinn er. „Við erum að snúa frá fjölda manns sem við vitum hverjir eru, en um leið og það kemur einhver sem við vitum ekki hver er þá hleypum við þeim inn," segir Eyjólfur. „Það er einhver villa í þessari jöfnu."

„Við höfum viðrað þessar áhyggjur okkar við þau yfirvöld í landinu sem fara með þennan málaflokk," segir Eyjólfur. Hann segir lögreglu einnig hafa sagt að þörf kunni að vera á sambærilegum úrræðum og í nágrannalöndunum, þar sem hælisleitendur eru settir í gegnum greiningu og vistaðir í til þess gerðum búðum meðan unnið er úr upplýsingum um þá . „Það kann að vera það úrræði sem myndi henta hér," segir Eyjólfur. „Að mönnum sé haldið aðskildum frá samfélaginu meðan ekki liggur fyrir hverjir þeir eru, án þess að það sé verið að setja fólk í fangelsi."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×