Innlent

Þingmenn gistu á lúxushóteli við Elliðavatn

Þingmenn í samgöngunefnd Alþingis gistu á lúxushóteli við Elliðavatn þegar þeir fóru í skoðunarferð um höfuðborgarsvæðið. Landsbyggðarþingmenn fá sérstaklega greitt fyrir að halda heimili á höfuðborgarsvæðinu.

Þingmenn samgöngunefndar fóru í sumar, að tillögu formannsins Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, í ferð um höfuðborgarsvæðið til að kynna sér samgöngumannvirki.

Á heimasíðunni Orðið á götunni segir að mikill ágreiningur hafi verið meðal nefndarmanna um þessa ferð, en hún hafi verið samþykkt á endanum þegar kröfum um hótelgistingu var mætt. Varð lúxushótelið Kríunes við Elliðavatn fyrir valinu.

Steinunn Valdís staðfestir að ferðin hafi verið farin en að hún hafi á engan hátt verið frábrugðin öðrum ferðum hennar. Ef eitthvað er, þá sé kostnaður við þessa ferð minni en við þær ferðir sem farnar hafa verið úti á landi.

Steinunn vill þó ekki tjá sig um hvort ágreiningur hafi verið meðal nefndarmanna um að fara í þessa ferð, en leggur áherslu á að tillaga hennar um að fara í ferðina hafi verið samþykkt samhljóða. Hún bendir á að þetta sé í fyrsta skipti sem samgöngunefnd skoðar samgöngumál innan höfuðborgarsvæðisins og að ferðin hafi gagnast nefndarmönnum mjög vel.

Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 fóru allir nefndarmennirnir í þessa ferð, ef undanskilinn er Ármann Kr. Ólafsson sem var í Færeyjum á þessum tíma. Þau Steinunn Valdís og Guðni Ágústsson munu ekki hafa gist á hótelinu, en það hafa aðrir nefndarmenn gert.

Samkvæmt lögum um þingfararkaup Alþingismanna og þingfararkostnað fá landsbyggðarþingmenn, það er þingmenn utan Reykjavíkurkjördæmanna og Suðvesturkjördæmis, sérstakar greiðslur fyrir að halda annað heimili í Reykjavík eða nágrenni.

Fimm nefndarmenn úr landsbyggðarkjördæmum, þau Árni Johnsen, Guðjón Arnar Kristjánsson, Herdís Þórðardóttir, Karl V. Matthíasson og Ólöf Nordal munu hafa gist á hótelinu. Það hafi einn þingmaður úr Reykjavíkurkjördæmi Norður, Árni Þór Sigurðsson, sömuleiðis hafa gert.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×