Fótbolti

Enn hneykslast Norðmenn á landsliðsfjarveru Veigars

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson, leikmaður Stabæk.
Veigar Páll Gunnarsson, leikmaður Stabæk. Mynd/Scanpix

Henning Berg, þjálfari Lyn, er meðal þeirra sem skilja ekkert í því að Veigar Páll Gunnarsson skuli ekki spila með íslenska landsliðinu. Veigar var ekki valinn í 20 manna hóp sem mætti Aserum í síðustu viku.

Ísland mætir Noregi ytra þann 6. september næstkomandi í fyrsta leik liðanna í undankeppni HM 2010.

„Það hefði verið frábært að fá að spila á móti Noregi," sagði Veigar Páll sem skoraði mark Stabæk í 1-1 jafntefli gegn Lyn í gær. „Ég hef mikinn metnað fyrir því að spila með landsliðinu og ég er hissa á því að fá ekki að vera með."

„Það er ótrúlegt að hann fái ekki að spila með landsliðinu," sagði Henning Berg. „Ísland hlýtur að vera með góða leikmenn í sínum röðum. En ég vil ekki tala meira um þetta mál því ég vil ekki tala hann inn í landsliðið."

„Þetta er hneyksli fyrir íslenska knattspyrnu," sagði Morten Skjönsberg, leikmaður Stabæk. „Það þarf bara að skoða tölfræði hans fyrir skoruð mörk og stoðsendingar," bæti félagi hans, Mike Kjölö, við. „Maður hlýtur að velta fyrir sér hvers konar leikmenn eru í íslenska landsliðinu - kannski eru þetta yfirburðamenn frá ensku og spænsku úrvalsdeildunum," sagði Kjölö í kaldhæðnistón.

Indriði Sigurðsson, leikmaður Lyn, er ekki í vafa um hvar Veigar Páll á heima.

„Hann er nógu góður til þess að eiga heima í byrjunarliði íslenska landsliðsins," sagði Indriði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×