Innlent

Rannsóknarnefnd flugslysa kannar þrjú atvik tengd Icelandair

Rannsóknarnefnd flugslysa rannsakar nú atvik sem varð í gær þegar vél Icelandair var snúið við skömmu eftir flugtak frá Keflavíkurflugvelli vegna bilunar í hreyfli. Þetta er í annað sinn í þessum mánuði sem vél á vegum Icelandair verður að nauðlenda vegna vélarbilunar.

Um 170 manns voru um borð í vélinni þegar hún nauðlenti á sjötta tímanum í gær. Vélin var á leið til New York og var nýfarinn í loftið þegar bilunarinnar varð vart. Slökkvilið var kallað út og björgunarsveitir settar í viðbragsstöðu en vélin lenti heilu á höldnu.

Ekki liggur fyrir hvað olli biluninni en samkvæmt upplýsingum frá rannsóknarnefnd flugslysa er málið nú í skoðun.

Þetta er í annað skiptið í þessum mánuði sem vél frá Icelandair verður að nauðlenda í Keflavík vegna vélarbilunar. Þann 10. júlí síðastliðinn varð bilun í hreyfli til þess að flugstjóri vélarinnar neyddist til að drepa á honum. Um 180 manns voru um borð í vélinni sem lenti heilu á höldnu.

Þá þurfti að seinka flugtaki vélar Icelandair frá Bergen um miðjan mánuðinn vegna vélarbilunar.

Samkvæmt upplýsingum frá rannsóknarnefnd flugslysa verða málin skoðuð í samhengi en rannsókn er á frumstigi.

Ekki náðist í Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúa Icelandair, í morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×