Innlent

Björn endurskoði ákvörðun Útlendingastofnunar

Ágúst Ólafur Ágústsson.
Ágúst Ólafur Ágústsson.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingar og varaformaður allsherjarnefndar Alþingis, hvetur Björn Bjarnason dómsmálaráðherra til þess að endurskoða ákvörðun Útlendingastofnunnar í máli Keníamannsins Paul Ramses. Fundur hefur verið boðaður í nefndinni á morgun.

Útlendingastofnun vísaði Ramses úr landi fyrir helgi á grundvelli Dyflinnarsamningsins svokallaða án þess að fjalla um hælisumsókn hans hér á landi. Ákvörðunin hefur vakið mikla reiði í þjóðfélaginu og hafa margir líst yfir óánægju sinni vegna þessa.

Ágúst segir að allsherjarnefnd muni hittast á morgun og ræða málin en þingflokkur Vinstri grænna óskaði eftir að nefndin myndi hittast. „Það kom ósk frá þeim um að halda fundinn og ég held þingmenn úr öllum flokkum vilji ræða þetta mál enda verið mikið í deiglunni," segir Ágúst.

Í fjarveru Birgis Ármannssonar, formanns nefndarinnar, mun Ágúst stjórna fundinum en hann hefur boðað fulltrúa frá dómsmálaráðuneytinu, Útlendingastofnun, Rauða krossinum, Alþjóðahúsi og Amnesty á fundinn.

„Við munum fara yfir málið og meðal annars kalla eftir svörum um hvernig ferlið er."

Fundurinn hefur verið boðaður klukkan 14 á morgun.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×