Lífið

Hvíslað í blindu kaffihúsi

Bergvin Oddsson MYND/Brynja
Bergvin Oddsson MYND/Brynja

Hópur ungs fólks í Ungblind, ungmennadeild Blindrafélagsins, mun í sumar starfrækja svokallað Blint kaffihús í samstarfi við Hitt húsið. Kaffihúsið verður algerlega myrkvað og geta gestir sest þar niður og fengið sér mat eða kaffi og meðlæti í svartamyrkri.

Blint kaffihús hefur undanfarin ár verið starfrækt í Blindrafélaginu og í Hinu Húsinu í nokkra daga í senn í tengslum við listahátíðina List án landamæra. ,,Þegar að fólk með sjón sest niður byrjar það að hvísla eins og það sé kominn háttatími", segir Bergvin Oddsson einn skipuleggjanda sem jafnframt er blindur. Hann segir starfsemina hafa gengið vel en stundum rekist ,,þjónar á hvorn annan en það gerist auðvitað einnig á almennum kaffihúsum."

Kaffihúsið verður opið í um fjórar vikur í sumar og opnar það 17. júní og verður starfrækt á milli kl. 11 og 18 á daginn. Í kaffihúsinu munu starfa sjö einstaklingar. Fimm á vegum Ungblind og tveir leiðbeinendur á vegum Hins Húsins. ,,Þannig að við höfum fjögur augu", segir Bergvin og hlær.

Bergvin vonast til þess að vinnufélagar og aðrir hópar fjölmenni í súpu og brauð í hádeginu þessar vikur sem kaffihúsið verður opið. Jafnframt vonast hann eftir því að fyrirtæki taki vel í að styrkja verkefnið um bakkelsi og drykkjarvörur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×