Lífið

Einbýlishúsið í Tjörninni til sölu

Breki Logason skrifar
Húsið í tjörninni er hluti af dagskrá Listahátíðar Reykjavíkur sem hófst í gær.
Húsið í tjörninni er hluti af dagskrá Listahátíðar Reykjavíkur sem hófst í gær.

Vegfarendur í miðbænum ráku margir hverjir upp stór augu þegar þeir sáu einbýlishús úti í miðri Tjörninni. Uppátækið var hluti af Listahátíð Reykjavíkur en nú er húsið komið á sölu. Það er fasteignasalan Fasteignakaup sem sér um söluna. Varað er við nágrönnum sem eru í sífelldum erjum í Ráðhúsi Reykjavíkur.

„Það er nú bara smá föstudagur í manni og gaman að lifa. Það hefur verið rólegt að gera hérna á fasteignasölunni og ég ákvað að gera smá grín. Finnst þér þetta ekki fyndið hjá mér?," spyr Páll Höskuldsson hjá Fasteignakaupum.

Húsið er auglýst á fasteignavef Morgunblaðsins og segist Páll hafa tekið myndina í gær þegar hann átti leið framhjá. Hann efast um að einhver vilji flytja í húsið þar sem nágrannarnir séu svo slæmir.

„Ég hef samt aldrei fengið jafn margar símhringingar á jafn skömmum tíma. Kollegarnir hafa verið að hringja og hrósa okkur fyrir að gera smá grín af okkur sjálfum. Þessar fasteignaauglýsingar eru allar eins."

Fasteignaauglýsingin frá Páli hljómar svo:

„Höfum fengið til sölumeðferðar þetta fallega hús við Tjörnina í Reykjavík. Húsið er mjög rúmgott og hefur alltaf verið vel við haldið í gegnum tíðina. Stór veröld sem snýr í suður. Eig geta ekki ábyrgst nágranna sem eru í sífelldum erjum í Ráðhúsi Reykjavíkur."


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×