Innlent

Krónprinsparið lenti á Reykjavíkurflugvelli

Friðrik krónprins Danmerkur og kona hans María Elísbet lentu nú á ellefta tímanum á Reykjavíkurflugvelli en hingað eru þau komin í opinbera heimsókn sem stendur fram á fimmtudag.

Hjónin koma hingað í boði forsetahjónanna Ólafs Ragnars Grímssonar og Dorrit Moussaieff og er fyrsti áfangastaður þeirra Bessastaðir.

Meðal þess sem krónprinsparið gerir í heimsókn sinni er að heimsækja grunnskóla, Stofnun Árna Magnússonar og Öskju, hús náttúruvísinda Háskóla Íslands. Þá fer parið í reiðtúr á íslenskum hestum og heimsækir Þingvelli og snæðir þar hádegisverð með forsætisráðherra og eiginkonu hans.

Þá verður Stykkishólmur heimsóttur og sömuleiðis danska herskipið Vædderen sem liggja mun í Reykjavíkurhöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×