Innlent

Ekki eftir neinu að bíða með aðildarumsókn að ESB

Íslendingar eiga ekki að bíða lengur með framtíðarákvarðanir um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu, segir Jón Sigurðsson fyrrverandi seðlabankastjóri og formaður Framsóknarflokksins. Hann segir ákvæði um úrsagnarrétt eyða vafa um stöðu fullveldis.

Jón skrifar grein í Morgunblaðið í dag undir heitinu Tími umsóknar er kominn þar sem hann rekur kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Jón segir fulla aðild Íslands að ESB einkum snerta fjögur svið: landbúnað, sjávarútveg og fiskveiðiauðlindina, peningamálastefnu og gjaldmiðilinn, og síðast en ekki síst fullveldi Íslands. Jón segir að væntanlegar stefnuákvarðanir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar muni valda róttækum breytingum í landbúnaði á næstu árum og því verði aðild að ESB fremur til þess fallin að styrkja landbúnaðinn heldur en hitt.

Jón segir sameiginlega fiskveiðistefnu ESB ekki eiga við á Íslandsmiðum þótt sjávarútvegsmálin komi til með að vera erfið viðfangs í samningum við sambandið. Viðurkennt er að útlendingar eiga ekki rétt til veiða á Íslandsmiðum bæði vegna nálægðarreglu ESB og reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika.

Jón segir vanda Íslendinga á sviði gjaldeyrismála- og peningamála augljósan. Segir hann íslenska hagkerfið samanstanda af þremur gjaldmiðlum, íslenskri krónu, verðtryggðri og gengistryggðri krónu og svo evru. Seðlabankinn hafi hins vegar einungis stjórn á íslensku krónunni en til að hafa áhrif á önnur viðskipti þurfi hann að forskrúfa hana. Slíkt gangi ekki nema á stuttu millibilsskeiði og því sé evran framtíðarvalkostur.

Að lokum segir Jón fulla aðild að ESB fela í sér nýja skilgreiningu fullveldis þannig að þættir þess verða sameiginlegir. Hins vegar feli aðild í sér ekki einhliða takmörkun á fullveldi Íslands þar sem úrsögn úr sambandinu sé ávallt fyrir hendi. Það eyði öllum vafa um stöðu fullveldisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×