Innlent

21 handtekinn á Suðurlandsvegi í dag

Tuttugu og einn maður var handtekinn í aðgerðum lögreglu á Suðurlandsvegi við Norðlingaholt í dag og lagt var hald á sextán ökutæki. Aðdragandi málsins var sá að vöruflutningabílstjórar lögðu bílum sínum á fyrrnefndum stað í morgun og lokuðu fyrir umferð.

Til átaka kom og beitti lögreglna varnarúða en áður höfðu bílstjórarnir hunsað ítrekuð fyrirmæli lögreglu um að færa bílana úr stað. Einn lögreglumaður slasaðist í átökunum en sá fékk grjót í höfuðið og var fluttur á slysadeild. Hann er ekki alvarlega slasaður.

 

Í hópi hinna handteknu voru umráðamenn ökutækja sem neituðu að hlýða ítrekuðum fyrirmælum lögreglu. Til rannsóknar eru ætluð brot þeirra gegn 168. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 27. gr. umferðarlaga, röskun á umferðaröryggi á alfaraleiðum og að hafa lagt ökutæki á þeim stað að valdið geti hættu eða óþarfa óþægindum fyrir umferðina.

 

Mannfjöldastjórnunarhópar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu stjórnuðu og sáu um aðgerðir á vettvangi. Þeim til aðstoðar voru nokkrir sérsveitarmenn frá embætti ríkislögreglustjóra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×