Innlent

Segir ekki hvaða lækni sem er treysta sér til Hafnar

Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri.
Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri.

Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri Hafnar í Hornafirði, sagði ástandið vissulega hafa verið slæmt en staðan væri þó mun betri nú.

„Viðhorf íbúa snýr ekki að því að læknisþjónustan sé slæm heldur er ekki nógu mikil festa í henni. Þetta er búið að vera nokkuð gott núna undanfarið, við höfum haft tvo mjög góða lækna núna í allan vetur og annar þeirra heldur áfram næsta vetur," sagði Hjalti og bætti því við að samið væri við lækna um viss tímabil í senn, sum sveitarfélög væru mun erfiðari en önnur þegar að mönnun læknisþjónustu kæmi: „Þegar er skortur á læknum annars staðar þá eru það erfiðu læknahéruðin sem tæmast fyrst.

Tala um eyjar

Menn tala stundum um að þetta séu eyjar, sveitarfélögin Hornafjörður, Patreksfjörður og Vestmannaeyjar. Frá þessum stöðum er langt í næstu lækna og ætli menn að senda bráðatilfelli frá sér þurfa þeir að bíða eftir sjúkraflugi sem er kannski klukkutíma að koma á staðinn. Það er umtalsvert sem læknir þarf að takast á við hér, t.d. koma fyrir slys uppi á jökli sem geta verið mjög erfið og það er ekki hver sem er sem treystir sér hingað," sagði Hjalti.

Hann rifjaði upp að veturinn 2006 til 2007 hefði verið ákaflega erfitt tímabil vegna mikillar læknaveltu á staðnum. „Þá kom upp sú staða að aðeins einn læknir var starfandi í héraðinu. Við höfum leyfi fyrir þremur stöðum sem þýðir ekki að þrír læknar séu á staðnum, læknir á rétt á bakvaktafríi, námsleyfi og venjulegu sumarfríi sem allt í allt eru kannski þrír mánuðir á ári svo það eru kannski þrír mánuðir á árinu sem þrír læknar eru á staðnum," sagði Hjalti að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×