Lífið

Hvanndalsbræður fimm ára

Hvanndalsbræður fagna 5 ára afmæli sínu um þessar mundir og munu af því tilefni slá upp þrennum tónleikum á Græna Hattinum um páskana.

Miðvikudagskvöldið 19. mars verða tónleikar um kvöldið, fimmtudaginn 20. mars verða svo barna- og unglingatónleikar á Græna Hattinum frá kl. 16.00 til 17.00. Þeir tónleikar verða í boði KEA og því frítt inn fyrir krakkana. Á fimmtudagskvöldinu 20. mars verða svo aftur fullorðinstónleikar þar sem allir verða blind fullir og láta eins og sveskjuhausar.

Flutt verða lög sem spanna ferilinn, þannig gæti jafnvel hljómað lög eins og Svarfdælskir bændur, Upp í sveit og Kisuklessa svo eitthvað sé nefnt. Forsala aðgöngumiða verður í Pennanum Glerártorgi og hefst miðvikudaginn 12. mars n.k.

Upptökur á fimmtu breiðskífu Hvanndalsbræðra hófust um nú helgina og er langt á veg komnar. Um er að ræða plötuna "Knúsumst um stund" og kemur hún til með að innhalda allhressileg flúnkuný lög. Platan fjallar að mestu um ástina í öllum sínum óteljandi myndum og þá helst þeim myndum sem fáir vilja tjá sig um. Platan kemur út með vorinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×