Innlent

Níu þúsund á barn?

Sigrún Elsa Smáradóttir.
Sigrún Elsa Smáradóttir.

Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík, gagnrýnir harðlega hugmyndir um greiðslur til handa foreldrum sem eru með börn sín á biðlistum leikskóla. Ekki hefur enn verið gefið upp hve háar upphæðir verður um að ræða en Sigrún hefur reiknað út að um 9 þúsund krónur sé að ræða eftir skatta.

Fjármálastjóri borgarinnar segir að ekki sé búið að forma þessar hugmyndir til fulls en bendir á að heimgreiðslur í Kópavogi séu skattfrjálsar og að mögulega verði sá háttur einnig hafður á í Reykjavík. Það eigi stjórnmálamennirnir þó eftir að ákveða.

Á borgarstjórnarfundi í gærkvöldi reiknaði Sigrún hver möguleg greiðsla verður. „Ef það er rétt sem borgarstjóri hefur haldið á lofti í borgarstjórn og í fjölmiðlum að 1.200 börn séu á biðlistum eftir leikskólaplássum, þá skiptast 200 milljónirnar sem verja á í heimgreiðslur árið 2009 þannig að 13.888 krónur á mánuði koma í hlut foreldra sem ekki koma börnum á leikskóla," segur Sigrún Elsa. „Þá á eftir að taka skatt af greiðslunum og því eru það innan við 9 þúsund krónur sem að endingu koma í hlut foreldra með hverju barni."

Sigrún bendir á að Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri hafi sagt að gert sé ráð fyrir því að greiðslurnar skipti sköpum fyrir foreldra. „Því fer fjarri að 9 þúsund krónur á mánuði skipti sköpum fyrir þær fjölskyldur sem ekki koma börnum að á leikskólum borgarinnar og geta því ekki sinnt vinnu sinni fjölskyldum sínum til framfærslu. Það er miklu nær að ráðast í það átak í uppbyggingu leikskólamála sem þörf er á í Reykjavík."

Sigrún segir einnig að það sé afturhvarf til löngu liðins tíma að ætla að borga foreldrum fyrir að vera heima. „Sagan hefur sýnt að það er oftast konan sem fær það hlutskipti að sitja eftir heima. Slíkt er einungis til þess fallið að viðhalda launamun kynjanna og öðru kynbundnu óréttlæti á vinnumarkaði."

Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, segir að hugmyndin um greiðslurnar sé enn ekki fullmótuð og því ekki hægt að slá á hve miklar upphæðir verði að ræða. „Þessar svokölluðu heimgreiðslur sem eru viðhafðar í Kópavogi eru að því er best ég veit, skattfrjálsar. Það er hins vegar ekki búið að forma þetta til fulls hér í borginni,"segir Birgir en vísar að öðru leyti á fulltrúa meirihlutans í borgarstjórn.

Ekki náðist í Ólaf F. Magnússon, borgarstjóra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×