Lífið

Spaugstofan var ekki að gera grín að veikindum Ólafs

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar

„Við vorum bara að fjalla um atburði daganna á undan eins og við erum búnir að gera í 20 ár." segir Karl Ágúst Úlfsson Spaugstofumaður sem kannast ekki við það að vegið hafi verið að Ólafi F. Magnússyni borgarstjóra í þætti stofunnar á laugardag.

Mikið hefur verið rætt og skrifað um að ómaklega hafi verið vegið að Ólafi með umfjöllun um veikindi hans í þættinum.

„Það sem við vorum að gera var hreinlega að paródera þennan ofboðslega fókus sem fjölmiðlar settu á heilsufar Ólafs eftir að nýr meirihluti tók við", segir Karl.

Hann segir að Spaugstofuliðar hafi því ekki verið að gera grín að veikindunum sem slíkum, þeim hafi einfaldlega þótt það skondið að öll þessi athygli skyldi fara á það hvernig nýr borgarstjóri hefði það.

Karl undrast viðbrögðin við þættinum: „Það er svolítið gaman að því þegar þessi stórtíðindi eru nýskeð að öllu þessu púðri skuli eytt á Spaugstofuna, það segir kannski eitthvað um okkur sem þjóð".

Hann tekur gagnrýninni með jafnaðargeði, og segir að sjálfsögðu ágætt að hlutir séu gagnrýndir. Spaugstofan hafi fengið bæði jákvæð og neikvæð viðbrögð við því sem þeir hafa gert í gegnum tíðina. „Við þurfum að búa við það rétt eins og fólk í pólitík þarf að búa við að fjallað sé um það á mismunandi hátt í fjölmiðlum.

Spaugstofan mun að sögn Karls ekki leggja upp laupana yfir þessu, „Það væri hallærislegt að segja af okkur núna" segir Karl, og bæti við að Spaugstofan muni halda áfram að gera grín að pólitíkusum jafnt og öðrum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×