Handbolti

Ísland með öruggt sæti í milliriðlinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Róbert Gunnarsson fagnar marki í leiknum gegn Slóvakíu í gær.
Róbert Gunnarsson fagnar marki í leiknum gegn Slóvakíu í gær. Nordic Photos / AFP

Íslenska handboltalandsliðið er með öruggt sæti í milliriðlakeppninni eftir að Frakkar unnu Svía á EM í handbolta í gær.

Ef Svíþjóð vinnur Slóvakíu í dag er ljóst að Slóvakar sitja eftir með núll stig í riðlinum en þrjú af fjórum liðum fara áfram í milliriðlakeppnina.

Slóvakar þurfa því að vinna Svía í dag en ekkert minna en sex marka sigur dugar til. Það miðast einnig við að Ísland tapi fyrir Frakklandi í dag.

En hvort sem Slóvakía vinnur Svíþjóð með minna eða meira en sex marka mun fer Ísland áfram í milliriðlakeppnina með annarri hvorri þjóðinni.

Niðurröðun liðanna ræðst af árangri í innbyrðisviðureignum ef liðin þrjú - Ísland, Slóvakía og Svíþjóð - fá öll tvö stig í riðlakeppninni.

Ísland er með eitt mark í plús í markatölu í þeim samanburði. Sem stendur er Slóvakía með sex mörk í mínus og Svíþjóð fimm mörk í plús.

Vinni Slóvakía með sex mörkum í dag situr Svíþjóð eftir með eitt mark í mínus en Slóvakía verður þá með jafna markatölu.

Vinni Slóvakía með fimm mörkum sitja Slóvakar eftir með eitt mark í mínus en Svíþjóð verður þá með jafna markatölu.

Hvernig sem er verður Ísland alltaf með eitt mark í plús og því með betri árangur en bæði þessi lið.

Ef Slóvakar komast áfram í milliriðlakeppnina fer Ísland með tvö stig með sér í milliriðilinn en Slóvakar ekkert.

Ef Svíar komast áfram í milliriðlakeppnina fer Svíþjóð með tvö stig með sér í milliriðilinn en Ísland ekkert.

Allt þetta miðast auðvitað við að Ísland tapi fyrir Frakklandi í dag. Ef Ísland vinnur Frakkland dugar Slóvökum eins marks sigur á Svíum til að komast áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×