Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, FL Group og 365, sem rekur meðal annars Vísi, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar Vísis af ferðalagi hans og Ingibjargar Pálmadóttur ásamt vinafólki sem birtist 2. janúar síðastliðinn.
„Varðandi frétt á visir.is frá 2. janúar um ferðalag mitt og vina minna vil ég taka eftirfarandi fram:
Uppistaðan í fréttinni er röng og önnur atriði ónákvæm og hún var mér skaðleg. Ekki var haft samband við mig til að staðreyna
atriðin í fréttinni, né heldur neinn af starfsfólki mínu og enginn nafngreindur heimildamaður er nefndur. Ég átel fréttaflutning af þessum toga."
Jón Ásgeir Jóhannesson
Athugasemd frá ritstjóra
„Ég harma rangfærslur í fréttinni, sem voru hafðar eftir heimildarmönnum í góðri trú, og bið lesendur sem og það fólk sem var til umfjöllunar í fréttinni velvirðingar á þeim. Jóni Ásgeiri var ítrekað boðið upp á leiðréttingu á rangfærslum en þáði það ekki. Í ljósi rangfærslanna hef ég ákveðið að taka fréttina út úr flokknum "Mest lesnu" enda engum til góðs að röngum fréttum sé gert hátt undir höfði á Vísi."
Óskar Hrafn Þorvaldsson, ritstjóri Vísis"