Innlent

Aðild að ESB besta kjarabótin

Viðskiptaráðherra segir að stærsta skrefið sem hægt væri að stíga til lækkunar matvælaverðs á Íslandi, væri að Ísland gengi í Evrópusambandið. Þá segir hann að krónan muni ekki gagnast sem gjaldmiðill til langframa, þegar myntkerfum í heiminum fækki, sem einnig mæli með Evrópusambandsaðild Íslendinga.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sat fyrir svörum í Íslandi í dag í gærkvöldi. Þar var hann meðal annars spurður um stöðu krónunnar í ljósi mikilla viðskipta sem urðu í gær þegar Novator greiddi út tæpa tvö hundruð milljarða fyrir hlutabréf í Actavis. Krónan hefur um langt skeið verið sterk gagnvart helstu gjaldmiðlum, sem útflutningsfyrirtækin kvarta undan, enda er endurgjald þeirra í erlendri mynt minna fyrir vikið. Viðskiptaráðherra segir krónuna ekki ganga upp sem gjaldmiðil til lengdar.

Viðskiptaráðherra segir það sína skoðun að það endi með því að Íslendingar taki upp evruna. Það sé hins vegar ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar.

Björgvin telur útilokað að evran verði tekin upp án aðildar að Evrópusambandinu. En þótt það sé ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu, telur viðskiptaráðherra að hún muni hagnast Íslendingum.

"Stærsta skrefið til að lækka matvælaverð er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga síðan í það," segir Björgvin. Þangað til sé hægt að gera ýmislegt annað.

Viðskiptaráðherra nefnir að virðisaukaskattur á matvæli hafi verið lækkaður í marsmánuði, en til viðbótar megi lækka tolla á innflutt matvæli, ásamt því að standa vörð um raunverulega samkeppni á smásölumarkaði.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×