Lífið

Kynlíf selur kistur

MYND/Cofanifunebri.com
Verðlaunin fyrir furðulegasta dagatal fyrirtækis þetta árið fara til ítalska líkkistuframleiðandans Cofanifunebri. Fyrirtækið notar sprelllifandi, fáklæddar og blóðheitar fyrirsætur til að auglýsa nýjustu línu sína af líkkistum.

Á heimasíðu fyrirtækisins segir að fyrirtækið sérhæfi sig í fallegum og vönduðum kistum, duftkerjum og handunnum munum tengdum útförum. Fyrirtækið hefur þó tekið þá skynsömu leið að treysta ekki á gæðin ein til að selja vöruna, en vart er að finna mynd af kistu eða keri á síðunni án þess að eins og ein fáklædd ítölsk skutla fylgi með.
Fyrirtækið selur ýmsa muni tengda útförum á heimasíðu sinni, margir hverjir gætu orðið skemmtilegar og góðar jólagjafir. ,,Tíminn er naumur" úrið kostar tæpar fimmtíu evrur og kemur í lítilli trékistu. Líkistulaga sápustykki, með ,,eilífðar" ilmi kostar rúmar fimm evrur. Í vöruflokknum Smoke kills er svo líkkistulaga öskubakki, vindlingaaskja og kveikjari. Áhugasamir geta svo eignast dagatalið góða fyrir rúmar níu evrur auk póstburðargjalds.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×