Innlent

Skerðing vegna tekna maka afnumin

Heimir Már Pétursson skrifar

Skerðing tryggingabóta aldraðra og öryrkja vegna tekna maka verður afnumin á næsta ári og frítekjumark þeirra hækkað úr 25 þúsund krónum í hundrað þúsund á næsta ári. Þetta er meðal aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti í dag og kosta munu fimm milljarða króna á ári.

Aðgerðirnar sem ríkisstjórnin grípur til nú eru sagðar í samræmi við niðurstöðu nefndar á vegum félagsmálaráðherra og í samvinnu við fulltrúa aldraðra og öryrkja. Frá og með 1. apríl á næsta ári hætta tryggingabætur fólks á aldrinum 67 til 70 ára og öryrkja að skerðast vegna tekna maka. Þá verður gripið til sérstakra aðgerða til að draga úr of- og vangreiðslum tryggingabóta, sem valdið hefur mörgum bótaþegum hugarangri. Forsætisráðherra segir þetta í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir þetta fyrsta skrefið í að uppfylla það sem ríkisstjórnin einsetti sér í stefnuyfirlýsingu sinni. Ekki væri hægt að gera allt strax en haldið yrði áfram út kjörtímabilið við að bæta hag þessara hópa.

Að auki verða vasapeningar vistmanna stofnanna hækkaðir um 36 prósent og tryggt verður að elli - og örorkulífeyrisþegar fái a.m.k. 25 þúsund krónur á mánuði úr lífeyrissjóði. Ríkisstjórnin boðar líka að skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreigasparnaðar verði afnuminn frá 1. janúrar 2009.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir að með þessum aðgerðum sé stigið mikilvægt skref í að bæta hag aldraðra og öryrkja og mikilvægt að ná þessum áfanga fram við afgreiðslu fjárlaga nú.

Aðgerðirnar kosta ríkissjóð 2,7 milljarða á næsta ári en samanlagt munu aðgerðir hennar vegna þessara hópa kosta um fimm milljarða á ári þar á eftir. Félagsmálaráðherra gerir síðan ráð fyrir að heildarendurskoðun almannatryggingalaga ljúki fyrir lok næsta árs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×