Innlent

Guðni segir framkomu Halldórs ódrengilega

Við útgáfu bókarinnar. Guðni, Margrét Hauksdóttir eiginkona hans og Sigmundur Ernir Rúnarsson sem skrifaði bókina.
Við útgáfu bókarinnar. Guðni, Margrét Hauksdóttir eiginkona hans og Sigmundur Ernir Rúnarsson sem skrifaði bókina. MYND/Daníel R.

Guðni Ágústsson lýsir því í nýrri ævisögu sinni að ódrengilegt hafi verið af formanni Framsóknarflokksins, Halldóri Ásgrímssyni, að hafa varaformann sinn ekki með í ráðum þegar Halldór og Davíð Oddsson ákváðu að styðja innrás Bandaríkjamanna í Írak.

Stuðningur þessara tveggja ráðamanna við Íraksstríðið olli miklum titringi meðal flokksmanna og þjóðarinnar. Guðni lýsir því í bókinni Guðni - af lífi og sál hvernig hann heyrir fyrst af stuðningi íslenskra stjórnvalda við þessar hernaðaraðgerðir í útvarpsfréttum á leið eftir Reykjanesbrautinni í bíl sínum. Honum bregður svo að litlu munar að hann missi stjórn á bílnum og lendi utan vegar.

Guðni hringir í lykilmenn í flokknum og verður ljóst að Halldór tók þessa ákvörðun eftir að hafa ráðfært sig við mjög þröngan hóp nánustu samstarfsmanna. Viðbrögðum Guðna er svo lýst í bókinni: „Guðni er óttasleginn... Hann kvíðir viðbrögðum flokksmanna og finnst ódrengilegt að hafa ekki fengið að vera með í ráðum. Þessi pólitíski einleikur geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir flokksforystuna og flokkinn allan."

Guðni heldur sig til hlés í málinu, en er „fúll og sár út í formann sinn fyrir pólitískan afleik sem ekki sér fyrir endann á." Svo gerist það að hann fer í viðtal í Sunnudagsþáttinn á Skjáeinum. Þar er hann þráspurður um þennan gjörning og Guðni endar á því að segja að „þetta sé ákvörðun Davíðs og Halldórs og þeir verði að klóra sig fram úr henni." Við þessi ummæli verður allt vitlaust í flokknum. „Halldór," segir í bókinni, „er Guðna reiður og varaformaðurinn er kallaður á teppið. Alþjóð þekkir eftirleikinn, Halldór er horfinn af vettvangi stjórnmálanna og Guðni sestur í formannsstól."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×