Innlent

Áróðursbragð hjá Landsvirkjun

Ákvörðun Landsvirkjunar um að hætta viðræðum um sölu á raforku til nýrra álvera á Suðvesturlandi er einungis herbragð til að bæta ímynd virkjunarframkvæmda við Þjórsá. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna. Hann segist taka ákvörðuninni með miklum fyrirvara.

„Ég hef það á tilfinningunni að þetta sé einungis herbragð til að varpa jákvæðari ljósi á virkjunarframkvæmdir við Þjórsá," sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, í samtali við Vísi. „Stjórn Landsvirkjunar ímyndar sér kannski að þetta slái eitthvað á andstöðuna gegn virkjunarframkvæmdunum."

Stjórn Landsvirkjunar tilkynnti í gær að öllum viðræðum um sölu á raforku til nýrra álvera á suðvesturlandi hafi verið hætt. Þess í stað mun fyrirtækið hefja viðræður um raforkusölu til fyrirtækja sem hyggjast byggja upp netþjónabú á íslandi og fyrirtækja á sviði kísilhreinsunar fyrir sólarrafala.

Steingrímur segist taka ákvörðun Landsvirkjunar með fyrirvara. „Landsvirkjun og stjórnvöld finna að andstaðan við stóriðjustefnuna fer vaxandi. Því leika þeir þennan leik til að láta líta út fyrir að eitthvað hafi breyst. Ég á hins vegar eftir að sjá hvort hér sé um meiriháttar stefnubreytingu að ræða og þá hversu djúpt hún ristir."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×