Heimildir Vísis frá því fyrr í kvöld um að allt að fimmtán vítisenglar hafi verið handteknir við komuna til landsins virðast því ekki hafa verið á rökum reistar, heldur hafi þeir verið sjö.
Í tilkynningunni segir einnig að lögregla hafi fylgt settum reglum þegar fólkinu var synjað um landvist. „Leiðbeiningarskyldu skv. 25. gr. laga um útlendinga nr. 96, 2002 um heimildir viðkomandi til að leita sér aðstoðar lögmanns hefur verið gætt, en umræddir aðilar hafa til þessa kosið að nýta sér ekki þann rétt."
Þá segir að aðgerðum lögreglu sé ekki lokið. „Fylgst verður með komuflugi til landsins um helgina sem og fyrirhuguðu samkvæmi Fafner-MC Iceland." Það er embætti ríkislögreglustjóra sem fer með yfirstjórn aðgerðarinnar, sem er viðamikil, að sögn.
Framkvæmd aðgerðarinnar til þessa hefur verið í höndum lögreglunnar á Suðurnesjum auk þess sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og starfsmenn frá embætti ríkislögreglustjórans taka einnig þátt í henni.