Innlent

Yfirmaður herja NATO óánægður með Íslendinga

Æðsti yfirmaður herja Atlantshafsbandalagsins í Evrópu gagnrýndi í dag ákvörðun utanríkisráðherra að kalla íslenskan friðargæsluliða heim frá Írak. Hann segist hafa orðið fyrir vonbrigðum.

John Craddock yfirmaður herja NATO í Evrópu ræddi í morgun við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra, en hún var þá nýbúin að staðfesta í viðtali við Stöð tvö í gærkvöldi að Íslendingar yrðu ekki lengur með fólk á vegum bandalagsins í Írak. Á blaðamannafundinum í dag leyndi Craddock ekki óánægju sinni með þessa ákvörðun.

Hermenn NATO í Írak eru að þjálfa íraska herinn og aðstoða á annan hátt við uppbyggingu íraskra öryggissveita. Upplýsingafulltrúi í stöðvum NATO í Bagdad hefur undanfarin ár verið eins konar fánaberi Íslands - táknrænn stuðningur við veru erlendra herja í landinu. Þetta framlag hefur vakið kátínu í Bandaríkjunum en í máli Craddocs í dag mátti heyra að með þessari ákvörðun litu menn ekki lengur á Ísland sem hluta af fjölþjóðaliðinu í Írak.

Sá upplýsingafulltrúi sem nú er í landinu kemur heim um næstu mánaðamót og enginn fer út í staðinn.

Á annan tug Íslendinga starfar á öðrum vígvelli, í Afganistan. Ingibjörg segir að þar gegni öðru máli en í Írak.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×