Innlent

Á tvöföldum hámarkshraða

Lögreglan tók tæplega 60 ökumenn fyrir of hraðan akstur um helgina. Þeir fá allir sekt.
Lögreglan tók tæplega 60 ökumenn fyrir of hraðan akstur um helgina. Þeir fá allir sekt. MYND/vilhelm

Lögreglumál Fimm ökumenn voru teknir á tvöföldum leyfilegum hámarkshraða í íbúagötu í Breiðholti um helgina.



Leyfilegur hámarkshraði í götunni er 30 kílómetrar á klukkustund. Að sögn lögreglunnar mældust bílarnir á bilinu 60 til 70 kílómetra hraða. Þeir sem mældust á bilinu 56 til 60 kílómetra hraða þurfa að greiða 25 þúsund krónur í sekt.

Þeir sem mældust á bilinu 61 til 65 kílómetra hraða fá hins vegar 45 þúsund króna sekt og eru sviptir ökuleyfi í þrjá mánuði. Það er því talsverður munur á því hvort ökumenn mælist á 60 kílómetra hraða eða á 61 kílómetra hraða.

Alls voru tæplega sextíu ökumenn teknir um helgina fyrir of hraðan akstur á höfuðborgarsvæðinu. Sá sem hraðast ók var maður á fertugsaldri sem var tekinn á 153 kílómetra hraða sunnan Hafnarfjarðar. Hann má búast við að missa ökuleyfið og borga yfir hundrað þúsund krónur í sekt.

Þá var sautján ára ökumaður stöðvaður í Garðabæ á 143 kílómetra hraða. Fær hann háa sekt og missir jafnvel ökuréttindin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×