Erlent

Breski herinn sakaður um að sleppa skrímslum í Basra

Eitt skrímslanna murkar lífið úr snáki.
Eitt skrímslanna murkar lífið úr snáki.

Breski herinn í Basra í Írak liggur nú undir ámæli fyrir að standa fyrir plágu af risavöxnum mannýgum greifingjum þar í borg. Undanfarnar vikur hafa sögusagnir geisað um að risavaxin loðin skrímsli gangi um úthverfi borgarinnar og ráðist jafnt á búfénað og menn.

Fyrst sást til skrímslanna nálægt herstöð Breta og kveikti það á sögusögnum þess efnis að þeir hefðu sleppt ófreskjunum til að skelfa íbúa borgarinnar. Bretarnir áttu í stökustu vandræðum með að útskýra fyrirbærið þangað til að bóndi í nágrenninu veiddi nokkur dýranna.

Þau reyndust vera hunangsgreyfingjar, sérlega illskeytt greifingjategund með langar klær sem vílar ekki fyrir sér að ráðast á kóbraslöngu þurfi hún þess með.

Breski herinn þverneitar ásökununum. ,,Við neitum því afdráttarlaust að hafa sleppt mannætugreifingjum á svæðinu" sagði Mike Shearer, talsmaður breska hersins í yfirlýsingu. ,,Að halda því fram að við eigum hlut að máli er rangt, og óvísindalegt." Bretarnir hafa verið sakaðir um allskonar misgjörðir í Basra, nú síðast greifingjafaraldurinn og að sleppa snákum í vatnskerfi borgarinnar.

Greifingjarnir eru ekki þekktir fyrir að ráðast á fólk án þess að vera áreittir. Talsmaður hersins í Basra, David Gell, sagði þó að króaði maður einn þeirra af og potaði í hann með priki myndu hann hiklaust veðja á greifingjann.

Náttúruleg heimkynni hunangsgreifingja eru í Afríku og Mið-Austurlöndum, en þeir hafa hingað til ekki verið algengir í Írak. Vísindamenn telja að þeim hafi fjölgað í Basra vegna þess að þeir séu að flýja votlendi sem verið er að endurheimta norður af borginni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×