Innlent

Hrottafengið ofbeldi eykst gegn hommum

Jón Örn Guðbjartsson skrifar

Hrottafengið ofbeldi gegn samkynhneigðum karlmönnum virðist fara vaxandi. Framkvæmdastjóri Samtakanna 78 segir að í tvígang hafi verið reynt að myrða samkynhneigða einstaklinga á síðustu mánuðum, einungis vegna kynhneigðar þeirra.

 

Á síðustu mánuðum hefur mátt merkja aukningu á ofbeldi í garð homma og þeirra sem taldir eru hommar, að sögn framkvæmdastjóra Samtakanna 78. Einnig hefur ofbeldi aukist gegn svokölluðum transgender einstaklingum.

 

Að sögn Hrafnkels Tjörva Stefánssonar, framkvæmdastjóra samtakanna 78 átti eitt alvarlegasta brotið sér fyrir ári þegar 16 ára piltur stofnaði til kynna við samkynhneigðan mann á spjallrás á Netinu með það að markmiði að myrða viðkomandi.

Í ársskýrslu Samtakana 78 kemur fram að pilturinn hafi fullyrt að hann hafi "langað að prófa að drepa mann" og hafi hann farið gagngert inn á spjallrás til að „veiða homma" þar sem hann taldi að þeir væru „auðveld bráð". Þessi tilefnislausa árás er fráleitt einsdæmi.

 

Skráð tilvik um árásir gegn samkynhneigðum eru ekki það mörg að unnt sé að skoða málin í réttu tölfræðilegu samhengi. Hrafnkell segir hins vegar að nokkur dæmi séu um að ofbeldi gegn samkynhneigðum einstaklingum komi ekki fram í dagsljósið þar sem einhver hluti þolenda í slíkum ofbeldistilvikum hafi ekki kjark til að kæra.

 

Hrafnkell segir augljóst að ekki þurfi endilega að fara saman réttur einstaklinga samkvæmt lögum og raunveruleg staða manna innan samfélagsins. Hann segir að í nágrannalöndum okkar hafi verið merkjanleg aukning á ofbeldi gegn samkynhneigðum þótt réttur þeirra þar hefði á sama tíma verið aukinn með lögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×