Innlent

Erlent vinnuafl heldur ferðaþjónustunni gangandi

Nærri má geta að ferðaþjónustu á Íslandi sé haldið gangandi með erlendu starfsfólki. Í sumum tilvikum er hlutfall erlendra starfsmanna á hótelum hér á landi um 90 prósent. Von er á góðu ferðasumri.

Mikil mannekla hefur verið í gisti- og ferðaþjónustu það sem af er sumri. Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF (samtaka ferðaþjónustunnar), segir að fyrirtæki í greininni hafi átt í ströggli með að ráða fólk en fyrirtæki í þessum geira hafi mörg hver gripið til þess að ráða til sín erlent vinnuafl til að leysa úr vandanum.

Að sögn Renato Grünenfelder, framkvæmdastjóra hjá Fosshótelum, hefur einna verst gengið að ráða menntað starfsfólk og hann segir að sárlega vanti Íslendinga í störf hjá fyrirtækinu. Hlutfall erlendra starfsmanna á hótelum fyrirtækisins er í sumum tilvikum um og yfir 90%. Af 12 starfsmönnum á hótel Vatnajökli eru t.d. einungis tveir Íslendingar. Þórður B. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Fosshótela, segir að þetta sé fráleitt óskastaða hjá fyrirtækinu.

Þórður segir að tungumálaörðugleikar séu fátíðir vegna þessa en lakara sé að erlendir starfsmenn séu ekki alltaf vel að sér í menningu og sögu Íslendinga.

Að sögn Ernu Hauksdóttur er gert ráð fyrir aukningu ferðamanna til landsins á þessu ári og bókanir í gistingu lofi góðu. Hún segir að aukið framboð í gistingu skili sér yfirleitt í bættri markaðssetningu á nýrri þjónustu. Því kalli nýir kostir í gistingu á aukna eftirspurn.

Nýting á Fosshótelum er betri í sumar en í fyrra og segjast forkólfar Fosshótela prísa sig nokkuð sæla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×