Innlent

Saka Kaupás um aðför að prentfrelsi til að hlífa bæjarstjóra Kópavogs

Höskuldur Kári Schram skrifar

Forráðamenn Kaupáss, rekstrarfélags Nóatúns, Krónunnar og 11-11, hafa tekið tímaritið Ísafold úr sölu í öllum verslunum fyrirtækisins. Ábyrgðarmaður tímaritsins telur aðgerðir Kaupáss tengjast umfjöllun blaðsins um Gunnar Birgisson, bæjarstjóra í Kópavogi. Lögfræðingar Birtíngs, útgáfufélags Ísafoldar, fara nú yfir málið en að sögn framkvæmdstjóra Birtíngs um er um skýrt samningsbrot af hálfu Kaupáss að ræða. Framkvæmdastjóri Kaupáss segir aðgerðirnar ekki tengjast umföllun Ísafoldar.

„Það er verið að reyna hindra að við komum okkar efni á framfæri," sagði Reynir Traustason, ábyrgðamaður tímaritsins Ísafoldar, í samtali við Vísi. „Þetta er mjög alvarlegt mál og snýst um prentfrelsi og siðferði í viðskiptum."

Í tilkynningu frá ritstjóra og ábyrgðarmanns Ísafoldar kemur fram að forráðamenn Kaupáss hafi af óútskýrðum ástæðum tekið tímaritið úr sölu. Þar segir einnig að áhrifamenn hafi ítrekað með þrýstingi reynt að stöðva útgáfu nýjasta tölublaðs Ísafoldar vegna umfjöllunar um mansal í Kópavogi og aðkomu Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi, að næturklúbbnum Goldfinger.

Reynir segir áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins hafa reynt að beita ritstjórn þrýsting til að draga umfjöllunina til baka. „Það var reynt að þrýsta á stjórnarformann Birtíngs til að hafa áhrif á ritstjórn. Þegar það gekk ekki þá beitir stærsta fyrirtækið í Kópavogi þessum bolabrögðum."

Elín G. Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Birtíngs, sagði í samtali við Vísi um skýrt samningsbrot af hálfu Kaupáss að ræða. Hún segir lögfræðinga útgáfufyrirtækisins verið með málið til skoðunar. „Við hörmum þessar aðgerðir og teljum um skýrt samingsbrot að ræða. Lögfræðingar okkar eru að vinna í málinu."

Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Kaupáss, sagði í samtali við Vísi ákvörðun fyrirtækisins um að taka tímaritið úr sölu ekki tengjast umfjöllun þess. Kaupás hafi fyrir löngu ákveðið að selja ekki Ísafold í sínum verslunum. „Þeir mega halda það sem þeir vilja en þetta tengist ekki umfjöllun tímaritsins."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×